Fyrrverandi lögreglumaður sem dæmdur var í 18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum árið 2003 fékk uppreist æru í apríl 2010. Maðurinn, sem aldrei var nafngreindur hvorki í dómi héraðsdóms né Hæstaréttar, lagði fram vottorð sjö valinkunnra manna með umsókn sinni í júlí 2009.
Flestir virðast hafa starfað með manninum innan lögreglunnar í gegnum tíðina. Tveir háttsettir lögreglumenn virðast þó vera að gefa manninum meðmæli vegna starfsumsóknar árið 2002, sjö árum áður en hann sótti um uppreist æru.
Þetta kemur fram í gögnum sem dómsmálaráðuneytið hefur veitt fjölmiðlum sem óskuðu eftir aðgangi að í málum allra þeirra sem fengið hafa uppreist æru frá árinu 1995.
Maðurinn var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum, þar af tveimur margsinnis, þegar þær voru á aldrinum 11-16 ára. Sú þriðja var 12 ára. Hann neitaði ávallt sök en framburður stúlknanna var talinn trúverðugur og hann dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti 20. nóvember 2003.
Af þessum sjö valinkunnu mönnum á meðmælum sem maðurinn skilaði inn er meirihlutinn lögreglumenn. Tveir þeirra, Friðrik Björgvinsson, þáverandi yfirlögregluþjónn, og Grétar Sæmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, höfðu skrifað meðmæli sín í öðrum tilgangi enda bréf þeirra dagsett árið 2002, ári áður en maðurinn hafði hlotið dóminn.
Þrjú bréfanna sjö eru dagsett 2009 og virðast hafa verið skrifuð vegna umsóknarinnar.

