Erlent

Nærri því 400 þúsund rohingjamúslimar hafa flúið

Samúel Karl Ólason skrifar
Af þeim tæplega 400 þúsund sem flúið hafa til Bangladess er talið að um 240 þúsund séu börn.
Af þeim tæplega 400 þúsund sem flúið hafa til Bangladess er talið að um 240 þúsund séu börn. Vísir/AFP
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að 389 þúsund Rohingjamúslimar hafi flúið frá Búrma síðan átök hófust í Rakhine-héraði þann 25. ágúst. Þar á meðal séu um 240 þúsund börn og fólkið þurfi nauðsynlega á aðstoð að halda.

Á vef stofnunarinnar segir að yfirvöld í Bangladess og hjálparsamtök eigi erfitt með að aðstoða þennan fjölda. Þörf sé á skýlum, matvælum og lyfjum og læknaaðstoð.

Sumir sem hafa flúið yfir landamærin sjá þorp sín brenna við sjóndeildarhringinn en herinn og vopnaðir hópar búddista hafa verið sakaðir um að brenna heimili Rohingjafólks.

Rohingjafólkið hefur búið í Búrma um langt skeið og hefur verið lýst sem þeim minnihlutahópi í heiminum sem býr við mestar ofsóknir. Talið er að þeir séu um 1,1 milljón og búa langflestir þeirra í Rakhine héraði í vesturhluta Búrma en stjórnvöld þar hafa ekki viðurkennt þau sem borgara. Rohingjafólkið er íslamstrúar en meirihluti íbúa Búrma eru búddistar.

Yfirvöld Búrma hafa verið sökuð um þjóðernishreinsanir og að reyna að reka Rohingjafólkið frá landinu.

Þau hefur herinn verið sakaður um að koma fyrir jarðsprengjum við landamæri Búrma og Bangladess.

Átökin hófust þegar uppreisnarmenn sem tilheyra Rohingjafólkinu gerðu samræmdar árásir á lögreglustöðvar. Herinn hefur verið sakaður um harkaleg viðbrögð. Fólk sem hefur flúið til Bangladess segir að hermenn hafi skotið á þau og hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, segir ofbeldið vera þjóðernishreinsanir.

Þá segjast samtökin Amnesty International búa yfir sönnunum um að um sé að ræða skipulagða herferð sem gengur út á að brenna þorp Rohingjafólks.

AP fréttaveitan hefur eftir yfirvöldum í Búrma að hundruð hafi dáið í aðgerðum hersins og þar af tilheyri flestir Rohingjafólkinu. Þar að auki segja yfirvöld að 176 af 471 þorpi Rohingjafólksins hafi verið yfirgefin.


Tengdar fréttir

Frá friðarverðlaunum til þjóðernishreinsana

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, er sögð þegja á meðan almennir borgarar drepa Rohingja-múslima án dóms og laga. Suu Kyi er handhafi friðarverðlauna Nóbels og skora aðrir friðarverðlaunahafar á hana að binda enda á ofsóknirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×