Innlent

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu frestað um hálft ár

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ferðamenn á Þingvöllum sem greiddu líklega flestir ellefu prósent virðisaukaskatt.
Ferðamenn á Þingvöllum sem greiddu líklega flestir ellefu prósent virðisaukaskatt. vísir/pjetur
Fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustutengd starfsemi verður frestað um hálft ár og mun taka gildi 1. janúar 2019. Hækkkunin, sem átti að taka gildi, 1. júlí næstkomandi, hafði verið harðlega gagnrýnd.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fjárlögum fyrir árið 2018 sem kynnt voru í dag en í fjármálaáætlun var stefnt að því að færa gistiþjónustu og aðra ferðaþjónustutengda starfsemi úr neðra þrepi í almennt þrep virðisaukaskatts þann 1. júlí 2018.

Við upphaf ársins 2019 mun hið almenna þrep virðisaukaskattsins lækka úr 24 prósent í 22,5 prósent.

Sjá einnig: Gert ráð fyrir 44 milljarða króna afgangi



Áformin höfðu verði gagnrýnd nokkuð harðlega af hagsmunaaðilum innan ferðaþjónustunnar. Vöruðu samtök ferðaþjónustunnar við því að afkoma fyrirtækja í greininni færi hratt versnandi. Þá var tímasetning breytinganna, um mitt sumar á miðjum háannatíma ferðaþjónustunnar gagnrýnd.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að með því að fresta hækkuninni um hálft ár sé verið að koma til móts við  þessa gagnrýni.

„Með þessu uppleggi erum við að koma til móts við gagnrýni sem kom við umfjöllun um fjármálaáætlun, einkum hversu flókið það er að breyta um skattþrep tvisvar á hálfu ári,“ segir Benedikt.


Tengdar fréttir

„Afkoma greinarinnar fer hratt versnandi“

Samtök ferðaþjónustunnar segja að fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á fyrirtæki í ferðaþjónustu fari gegn lögum um opinber fjármál og gangi í berhögg við sjónarmið um meðalhóf við hækkun skatta. Framkvæmdastjóri samtakanna segir afkomu fyrirtækja í greininni fara hratt versnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×