Innlent

Greiddi ekki fyrir veitingar og hnuplaði skömmu síðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ófáir gistu fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu.
Ófáir gistu fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu. VÍSIR/ANTON BRINK
Lögreglan þurfti tvisvar að hafa afskipti af sömu konunni með klukkustundarmillibili í gær. Er hún sögð í skeyti lögreglunnar hafa stundað fjársvik er hún sat á veitingahúsi í miðborginni á níunda tímanum og þáði veitingar sem hún gat svo ekki greitt fyrir.

Um klukkustund síðar barst lögreglu tilkynning um að kona hefði verið staðin að þjófnaði í verslun í Skeifunni. Þegar lögreglumenn komu á vettvangi reyndist um sömu konu og á veitingahúsinu að ræða. Ekki er greint frá því í dagbók lögreglunnar hvernig málum konunnar lauk.

Þá barst lögreglu tilkynning um þrjá menn á stigagangi við Bríetartún sem húsráðendur könnuðust ekki við. Þeir eru sagðir hafa verið með ýmis verkfæri meðferðis og telur lögreglan að þeir hafi haft þýfi í fórum sínum. Þeir voru vistaðir í fangageymslu meðan nánar er grennslast fyrir um mál þeirra.

Einnig voru hendur hafðar í hári manns sem sagður er hafa verið í annarlegu ástandi við hús á Seltjarnarnesi. Er hann að sögn lögreglu grunaður um hótanir og að hafa ekki farið eftir fyrirmælum lögreglunnar. Hann var fluttur í fangaklefa þar sem hann hefur varið nóttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×