
„Það er skortur á húsnæði hjá okkur í Húnaþingi vestra,“ segir Guðný Hrund Karlsdóttir sveitarstjóri. „Það gengur til að mynda erfiðlega að manna starfsfólk í okkar sveitarfélagi. Fólk vill koma og vinna í sveitarfélaginu og vinnu er að hafa. Hins vegar getur það ekki komið því það er skortur á húsnæði. Okkar vandi er síður en svo einsdæmi.“
Sveitarfélög landsins vinna nú að húsnæðisáætlun sem mun hjálpa Íbúðalánasjóði mjög við greiningu á vandanum. Húsnæðisþing sveitarfélaganna er áformað um miðjan næsta mánuð þar sem sveitarfélög munu ráða ráðum sínum.
Illugi Gunnarsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar, segir tækifæri fyrir stofnunina og Íbúðalánasjóð að vinna nánar saman að kortlagningu málaflokksins í heild og skoða landið svæðaskipt. Vandi svæða sé mismunandi eftir staðsetningu og því þurfi að afla frekari gagna til að geta áttað sig betur á þessum mikla húsnæðisvanda í landsbyggðunum.