Vísindamenn reyna nú að leggja mat á þær skemmdir sem urðu á Arecibo-útvarpssjónaukanum eftir að fellibylurinn María gekk yfir Púertó Ríkó í síðustu viku. Slökkt hefur verið á sjónaukanum frá því áður en María gekk yfir.
Arecibo-útvarpsstjónaukinn var lengi vel sá stærsti sinnar tegundar í heiminum en er nú sá næststærsti. Samkvæmt fréttum frá Geimrannsóknastofnun bandarískra háskóla (USRA) sluppu starfsmenn og fjölskyldur þeirra óhultir frá hamförunum.
Brak er sagt hafa gert göt á disk sjónaukans sem er 305 metrar að þvermáli. Þá fauk tæplega þrjatíu metra hátt loftnet sem hékk yfir disknum út í veður og vind, að því er segir í frétt Space.com.
Ástandið á Púertó Ríko eftir Maríu er alvarlegt. Rafmagnslaust er þar, samgöngu- og fjarskiptakerfi eru í lamasessi og skortur er á nauðsynjum eins og matvælum og eldsneyti.
Sögufrægur útvarpssjónauki skemmdist í fellibylnum Maríu
Kjartan Kjartansson skrifar
