Egill Magnússon er kominn með leikheimild með Stjörnunni og getur því leikið með liðinu gegn Aftureldingu í 3. umferð Olís-deildar karla á sunnudaginn.
Eins og Vísir greindi frá í gær kemur Egill til Stjörnunnar frá Team Tvis Holstebro í Danmörku.
Agli er ætlað að fylla skarðið sem Ólafur Gústafsson skildi eftir sig þegar hann fór til danska liðsins Kolding.
Egill fór Holstebro eftir að hafa slegið í gegn með Stjörnunni í Olís-deildinni tímabilið 2014-15. Hann skoraði þá 137 mörk í 24 deildarleikjum og var langmarkahæstur í liði Stjörnunnar.
Meiðsli gerðu Agli erfitt fyrir hjá Holstebro og hann spilaði lítið með danska liðinu.
Leikur Aftureldingar og Stjörnunnar hefst klukkan 19:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.
