Vetrarólympíuleikarnir fara fram í febrúar næstkomandi. Það er allt tilbúið í Pyeongchang í Suður-Kóreu en engu að síður hafa margir miklar áhyggjur af þessum 23. vetrarólympíuleikum sögunnar.
Ástæðan er spennan á Kóreuskaganum sem eykst dag frá degi vegna eldflauga- og kjarnorkutilrauna Norður-Kóreumanna og harðra viðbragða Bandaríkjamanna og annarra þjóða við þeim.
Forráðamenn leikanna vinna náið með stjórnvöldum í Suður-Kóreu þar sem fylgst er vel með stöðu mála og þeir létu það frá sér í gær að algjört forgangsatriði væri að tryggja öryggi allra á leikunum.
Frakkar eru hinsvegar fyrsta keppnisþjóðin til að gefa út formlega yfirlýsingu vegna leikanna sem fara fram 9. til 25. febrúar næstkomandi.
Laura Flessel, íþróttamálaráðherra Frakka, sagði í gær að Frakkar myndu ekki fara á leikana í Pyeongchang nema þeir væru fullvissir um öryggi keppenda sinna. Reuters fréttastofan segir frá.
„Ef ástandið versnar á Kóreuskaganum og ekki er hægt að tryggja öryggi okkar fólks þá mun franska Ólympíuliðið vera heima,“ sagði Laura Flessel. Hún bætti hinsvegar við: „Við erum samt ekki komin þangað ennþá.“
Pyeongchang er aðeins í 80 kílómetra svæði frá hlutlausa landamærasvæðinu á milli Norður og Suður Kóreu en hvergi í heiminum eru meiri hergögn á landamærum. Stríð Kóreuþjóðanna á sjötta áratugnum lauk aldrei þó að vopnahlé hafi staðið frá 1953.
Frakkar eru langt frá því að vera eina þjóðin sem hefur áhyggjur af þróun mála á Kóreuskaganum en eins og er þá fylgjast allir vel með og spara allar yfirlýsingar þar til síðar.
Frakkar hóta því að skrópa á Ólympíuleikana
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið




Ærandi þögn þegar Elías Ingi lenti í lyftu með Skagamönnum
Íslenski boltinn

Faðir Arnars og Bjarka fékk nóg og hótaði að berja George Kirby
Íslenski boltinn


Arne Slot: Við vorum ekki heppnir, reglan er svona
Enski boltinn

Skoraði fyrir látinn litla bróður sinn
Enski boltinn

