Fótbolti

Fjölmiðlar um allan heim fjalla um sögulegt afrek Íslands: „Fótboltaævintýri Íslands heldur áfram“

Þórdís Valsdóttir skrifar
Ísland sigraði gegn Kósóvó í kvöld og tryggði sér sæti á HM 2018 í Rússlandi.
Ísland sigraði gegn Kósóvó í kvöld og tryggði sér sæti á HM 2018 í Rússlandi. Vísir/ernir
Ísland tók í kvöld titilinn sem fámennasta þjóðin sem komist hefur á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í karlaflokki. Með 2-0 sigri gegn Kósóvó fékk Ísland farseðilinn til Rússlands.

Trínidad og Tóbagó var áður minnsta þjóðin sem hefur komist á HM þegar þjóðin komst á HM 2006 í Þýskalandi. Í Trínidad og Tóbagó búa milljón fleiri en á Íslandi og er Ísland því lang minnsta þjóðin sem fer á HM.

Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um sigurinn og velgengni íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í kvöld.

Nágrannar okkar í Noregi segja Ísland klárt í sitt fyrsta heimsmeistaramót í knattspyrnu. „Fótboltaævintýrið heldur áfram á Íslandi.“

Bandaríski íþróttafjölmiðillinn ESPN fjallaði um sigur Íslands. „Það var stjarnan Gylfi Sigurðsson, sem setti EM eftirlætið á braut til Rússlands á fertugustu mínútu,“ segir á síðunni.

„Ísland mun keppa í fyrsta skipti í lokakeppni HM næsta sumar eftir að hafa sigrað riðilinn sinn“ kemur fram á Daily Mail.

Nýsjálenska fréttaveitan Stuff fjallaði einnig um málið. „Íslendingar halda skriðu sinni áfram eftir hvetjandi frammistöðu sína á EM 2016. Ísland endaði efst í riðli sínum og fóru sjálfkrafa í lokakeppni HM í Rússlandi á næsta ári á kostnað Króatíu,“ segir í fréttinni. Þar er einnig vakin athygli á fólksfæð Íslands.

„Með 2-0 sigri gegn Kósóvó gerði Ísland það sem fáir hefðu trúað að væri mögulegt fyrir eyþjóðina sem er frægari fyrir eldfjöll og norðurljós heldur en knattspyrnu: tryggði sér sjálfkrafa þátttöku á Heimsmeistarakeppninni í Rússlandi 2018,“ segir á vefmiðlinum Heavy.com




Fleiri fréttir

Sjá meira


×