Fótbolti

Hannes: Æðisleg tilfinning þegar þögn sló á Tyrki

Birgir Olgeirsson skrifar
„Þetta er einn af þessum stóru, það er ekki spurning,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson eftir sigur karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu gegn Tyrkjum í kvöld. Ísland gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk gegn engu á heimavelli Tyrkja og kom sér þannig á topp I-riðils eftir að Finnar náðu jafntefli á heimavelli Króata í kvöld.

„Ég er ekki búinn að hugsa þetta alveg svo langt hvar maður raðar þessu en engin spurning þetta kvöld er eitt af skemmtilegustu kvöldum sem maður hefur upplifað. Alveg ólýsanlegt og alveg klárlega einn af stærstu sigrum landsliðsins,“ sagði Hannes.

Spurður hvernig upplifunin var þegar þögn sló á tyrknesku áhorfendurna þegar íslenska liðið raðaði inn mörkum svaraði Hannes því að tilfinningin hefði verið æðisleg.

„Maður fann að þessi leikur var að spilast nákvæmlega eins og við höfðum óskað okkur að hann myndi spilast þegar við náðum að loka á þá, náðum að refsa þeim vissum við að þeir myndu panikka og stemningin myndi snúast gegn þeim. Það gekk allt fullkomlega upp og þegar maður fann að við værum með þetta var það mjög góð tilfinning,“ sagði Hannes.

Hann sagði Tyrki ekki hafa ógnað marki Ísland að ráði. „Þetta voru einhverjar máttlausar tilraunir og við lokuðum á allt sem þeir reyndu og gerðum það frábærlega. Þetta hefur verið einkenni okkar síðustu ár og allir okkar bestu leikir hafa litið nákvæmlega svona út þar sem við spilum á móti stærri þjóðum og við náum að vera þéttir og gefa fá færi á okkur og pirra þá. Við vitum að Tyrkir henta okkur ágætlega og þetta gekk í dag. Við vorum þéttir og gáfum fá færi á okkur og erum með gæði fram á við þegar tækifæri gefst.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×