Enric Millo fulltrúi spænsku ríkisstjórnarinnar í Katalóníu bað í dag alla Katalóna afsökunar sem slösuðust í átökunum á sunnudag. Sagði hann þó að þetta hafi verið katalónsku stjórninni að kenna fyrir að hafa haldið ólöglegar kosningar. Spánverjar lýstu þær ólöglegar og kröfðust þess að þær færu ekki fram en rúmlega 900 manns slösuðust í kringum atkvæðagreiðsluna umdeildu á sunnudag.
Harkaleg viðbrögð stjörnvalda Spánar hafa verið gagnrýnd. Lögregluþjónar í óeirðarbúningum beittu kylfum og gúmmíkúlum gegn kjósendum og mótmælendum. Spænska lögreglan lokaði rúmlega 300 og reyndi víða að fjarlægja kjörgögn. 90 prósent kjósenda í Katalóníu kusu með sjálfstæði en lokatölur liggja ekki fyrir.
Stjórnlagadómstóll Spánverja setti lögbann á fund katalónska þingsins sem fara átti fram á mánudag og sagði fundinn brot á stjórnarskrá Spánar. Carles Puigdemont, forseti Katalóníu ætlaði að fara fram á að þingið lýsti yfir sjálfstæði. Hugsanlega mun hann koma fyrir þingið á þriðjudag en mikil óvissa er um framtíð Katalóníu.
Josep Lluis Trapero, lögreglustjóri í Katalóníu, var færður fyrir dómara í Madrid vegna gruns um uppreisnaráróður gegn ríkinu. Er lögreglusveit hans, Mossos d‘Esquadra, sökuð um að brugðist þegar vernda þurfti spænsku lögregluna frá mótmælendum sem börðust fyrir sjálfstæði Katalóníu.
Í frétt á vef BBC kemur fram að ríkisstjórn Spánar ætlar að leggja fram lagabreytingafrumvarp sem mun auðvelda fyrirtækjum að flytja höfuðstöðvar sínar frá Katalóníu. Efnahagur Katalóníu er sterkari en í ýmsum héröðum Spánar.

