Fótbolti

Jóhann Berg: Lét Gylfa vera í þetta skiptið

Tómas Þór Þórðarson í Antalya skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í fótbolta, kveðst ekki hafa verið erfiður við Gylfa Þór Sigurðsson, félaga sinn í landsliðinu þegar þeir komu til móts við hvorn annan í Antalya í Tyrklandi þar sem strákarnir okkar eru við æfingar.

Gylfi Þór og Jóhann Berg mættust í ensku úrvalsdeildinni um helgina, eða réttara sagt liðin þeirra, Everton og Burnley. Gylfi var í byrjunarliði Everton en Jóhann Berg kom ekki við sögu hjá Burnley sem vann leikinn, 1-0.

„Þar sem ég spilaði ekki lét ég Gylfa bara vera. Hefði ég spilað hefði hann ekki fengið frið. Ég var ekki nógu sáttur við að fá ekki að spila. Svona er þetta bara,“ sagði Jóhann Berg sem er annars búinn að koma mikið við sögu hjá Burnley á tímabilinu.

„Ég er samt búinn að spila mikið á þessu tímabili en datt út úr liðinu eftir bikarleik þar sem ég spilaði 120 mínútur. Ég er samt fullviss um að ég muni komast aftur í liðið. Ég lét Gylfa samt vera í þetta skiptið,“ sagði Jóhann Berg.

Vængmaðurinn öflugi meiddist þrívegis með Burnley á síðustu leiktíð en gerði vel í sumar og vann sér aftur inn traust knattspyrnustjórans Sean Dyche. Hann hefur svo byrjað meira og minna alla leiki liðsins og er að þakka traustið.

„Ég held að ég hafi gert það með minni frammistöðu í byrjun þessa tímabils. Auðvitað vildi maður nú vera búinn að skora og gera meira en við erum búnir að spila erfiða útileiki á móti Tottenham, Liverpool og Chelsea og þar var nú ekki mikið um sóknarævintýri hjá okkur þar. Nú er það bara fyrir mig að koma mér aftur í liðið,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.


Tengdar fréttir

Bakslag hjá Aroni Einari

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, er ekki alltof bjartsýnn á að hann geti verið með liðinu í leiknum mikilvæga á móti Tyrkjum í undankeppni HM 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×