Verkalýðsfélög í Katalóníu standa í dag fyrir allsherjarverkfalli í mótmælaskyni við aðfarir spænskra stjórnvalda.
Lögreglumenn gengu hart fram gegn Katalónum sem kusu um sjálfstæði héraðsins á sunnudag. Skutu þeir meðal annars gúmmískotum í fólk og barði það með kylfum. Talið er að rúmlega 800 manns hafi særst. Rúmlega 90% kjósenda, sem voru um 2,2 milljónir talsins, kusu með sjálfstæði Katalóníu. Stjórnvöld í Madríd hafa ekki viljað viðurkenna niðurstöður kosninganna og segja þær ólöglegar.
Sjá einnig: Evrópa ekki líkleg til stórræða í Katalóníu
Talið er að verkföll dagsins muni lama Katalóníu; almenningssamgöngur munu liggja niðri og skólum og sjúkrahúsum verður lokað. Jafnframt er gert ráð fyrir því að knattspyrnuliðið Barcelona muni einnig neita að mæta til vinnu í dag, þó enginn leikur sé á dagskrá og þá verður listasöfnum og háskólum skellt í lás.
Þá er jafnvel ýjað að því að Barcelona muni framvegis spila á Englandi, lýsi Katalónía yfir sjálfstæði.
Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, að Ísland myndi myndi ekki taka afstöðu til mögulegrar sjálfstæðisyfirlýsingar Katalóníu nema með aðkomu Alþingis. Hann telur jafnframt ekki æskilegt að starfsstjórn taki sjálfstæða afstöðu í málum eins og þessu, að svo stöddu.
