Erlent

Tom Petty látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tom Petty kom fram allt til síðasta dags. Hér er hann á sviði í Kaliforníu fyrir um tveimur vikum síðan.
Tom Petty kom fram allt til síðasta dags. Hér er hann á sviði í Kaliforníu fyrir um tveimur vikum síðan.
Tónlistarmaðurinn Tom Petty er látinn, 66 ára að aldri. Banamein hans var hjartaáfall. Petty fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í Los Angeles og var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést skömmu síðar. Greint var frá því í gærkvöldi að hann væri þungt haldinn og að einhverjir miðlar hefðu hlaupið á sig með andlátstilkynninguna.

Í yfirlýsingu á vefsíðu söngvarans, undirritaðri af umboðsmanni hans og fjölskyldu, er greint frá fráfalli hans. Er það sagt að hann hafi látist klukkan 20:40 að staðartíma, klukkan 03:40 að íslenskum, í faðmi fjölskyldu, hljómsveitarmeðlima og vina.

Tilkynninguna má sjá hér að neðan.

Andlátstilkynningin á vef söngvarans.tompetty.com
Ferill Petty spannaði nokkra áratugi, en hann rataði fyrst í sviðsljósið þegar hann kom fram með bandinu The Heartbreakers á sjöunda áratug síðustu aldar.

Á meðal þekktustu laga hans eru Free Fallin´, I Won´t Back Down, Don´t do me like that og Learning to fly.

Tom Petty & The Heartbreakers sendu frá sér sína fyrstu plötu árið 1976 og störfuðu saman næstu fjóra áratugina. Petty spilaði á sínum síðustu tónleikum fyrir viku í Hollywood Bowl en þar hafði selst upp á þrennum tónleikum sveitarinnar til að fagna fjörutíu ára starfsafmæli hennar. Afmælistónleikaferð sveitarinnar taldi 53 tónleika í 24 ríkjum Bandaríkjanna.

Petty starfaði einn um tíma og þá var hann einni í súpergrúppunni Travelling Wilburys ásamt Bob Dylan, George Harrison, Roy Orbison og Jeff Lynne.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×