Frábær fyrri hálfleikur dugði Stólunum til 84-76 sigurs gegn Þórsurum frá Þorlákshöfn í 32-liða úrslitum Maltbikarsins í körfubolta en Stólarnir leiddu með 23 stigum í hálfleik á heimavelli.
Þeir settu tóninn strax og leiddu 29-15 að fyrsta leikhluta loknum og bættu við forskotið í öðrum leikhluta, staðan 52-29 í hálfleik og Stólarnir í góðum málum.
Þórsarar náðu aðeins að saxa á forskotið í þriðja og fjórða leikhluta en tíminn var of naumur. Lauk leiknum með átta stiga sigri Stólanna.
Antonio Hester var stigahæstur með 21 stig í liði Stólanna en Christopher Caird bætti við fimmtán stigum. Í liði gestanna var Adam Eiður Ásgeirsson stigahæstur með 21 stig en Jesse Pellot-Rosa náði sér ekki á strik með 6 stig.
