Körfuboltagoðsögnin Michael Jordan sem er núverandi eigandi Charlotte Hornets í NBA-deildinni er ekki hrifin af þróun mála í NBA-deildinni í körfubolta.
Það hefur nefnilega færst mikið í aukanna að bestu leikmennirnir hafa verið að safnast saman í sömu liðin og úr verða þessi svokölluðu súperlið.
„Þetta mun skaða heildarmynd deildarinnar hvað varðar minni samkeppni í leikjum deildarinnar,“ sagði Michael Jordan í viðtali við Cigar Aficionado tímaritið.
„Þarna erum við með tvö frábær lið en svo verða hin 28 liðin algjör rusl eða eiga eftir að vera í miklum vandræðum með að lifa af í þessu viðskiptaumhverfi,“ sagði Jordan. ESPN segir frá.
Jordan er væntanlega að vísa til liðs Golden State Warriors sem er núverandi NBA-meistari, hefur unnið tvisvar á síðustu þremur árum, komst í lokaúrslitin þrjú ár í röð og er með unga og fríska lykilmenn sem eiga geta haldið liðinu á toppnum í mörg ár í viðbót.
Golden State Warriors er samt ekki eina liðið sem hefur verið að bæta við sig súperstjörnum.
Oklahoma City Thunder er nú með þá Russell Westbrook, Carmelo Anthony og Paul George; Houston Rockets hefur þá Chris Paul og James Harden og hjá Boston Celtics spila í vetur þeir Kyrie Irving, Gordon Hayward og Al Horford.
Það má þó líta á það sem svo að Michael Jordan hafi verið hluti af einu af fyrstu súperliðunum eða liði Chicago Bulls tímabilið 1995-96. Það lið setti met með því að vinna 72 leiki í deildinni og vann svo NBA-titilinn. Bulls vann líka næstu tvö ár á eftir.
Nú hefur Michael Jordan áhyggjur og ekki síst sem eigandi eins af liðunum sem er ekki með súperlið. Liðin hans Charlotte Hornets hefur aðeins komist í gegnum fyrstu umferð úrslitakeppninnar tvisvar sinnum frá 2000-01 tímabilinu.
Stærstu stjörnur Charlotte Hornets liðsins í dag eru þeir Kemba Walker, Dwight Howard, Nicolas Batum, Michael Carter-Williams og Michael Kidd-Gilchrist og liðið er því langt frá því að teljast til hinna útvöldu súperliða NBA-deildarinnar.
