Erlent

Vill að Trump haldi sig frá helstu málunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Bob Corker.
Donald Trump og Bob Corker. Vísir/GETTY
Öldungadeildarþingmaðurinn Bob Corker fór víða um í morgunsjónvarpi Bandaríkjanna þar sem hann gagnrýndi Donald Trump, forseta, harðlega. Hann biðlaði til Trump að hætta að skipta sér af helstu málefnum Bandaríkjanna. Hann ætti að láta „sérfræðingana sjá um þetta í bili“.

Donald Trump brást reiður við yfirlýsingum Corker og gagnrýndi hann og uppnefndi á Twitter.

Meðal þess sem Corker sagði í dag, samkvæmt frétt Washington Post, var að nokkrir starfsmenn forsetans gerðu sitt besta til að halda aftur af honum, en Trump hefði hins vegar skaðað, meðal annars, og grafið undan utanríkisráðherra sinn með einföldum tístum.

Þannig væri hann að gera viðræður við til dæmis Norður-Kóreu erfiðar og mögulega leiða til stríðs.

Þá mætti Corker í þáttinn Good Morning America á ABC og sagði forsetanum að stíga til hliðar og láta sérfræðinga sjá um málin.

Corker kom einnig að skattaáætlunum repúblikana og sagðist vonast til þess að Hvíta húsið yrði ekki fyrir. Að málið fengi að vera í eðlilegu ferli án afskipta.

Trump virtist nú ekki sáttur við þessa gagnrýni og svaraði fyrir sig á Twitter. Þar sagði hann Corker hafa komið að „vonda“ kjarnorkusamkomulaginu við Íran. Hann gæti ekki verið kosinn hundaveiðari í Tenessee og sé nú að berjast gegn lækkun skatta.

Þar að auki sagði Trump að Corker hefði ákveðið að bjóða sig ekki aftur fram til öldungadeildar bandaríkjaþings eftir að Trump neitaði að styðja hann.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump segir Corker hafa komið að samkomulaginu við Íran. Staðreyndin er sú að Corker var andvígur samkomulaginu og reyndi að koma í veg fyrir Barack Obama gæti fellt niður viðskiptaþvinganir gagnvart Íran. Þá greiddi hann atkvæði gegn samkomulaginu, samkvæmt Politifact.com.



Þá sagði Corker fyrr í mánuðinum að það væri ekki rétt að hann hafi beðið Trump um stuðning. Þess í stað hafi Trump beðið Corker um að bjóða sig fram aftur og lofað stuðningi sínum. Corker hafi hins vegar neitað.

Sjá einnig: Segir skeytingarleysi Trump geta leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar



Corker svaraði einnig tístum Trump með eigin tísti. Þar sagði hann Trump flytja sömu lygarnar og sagði forsetann ljúga sífellt. Við það bætti hann „#AlertTheDaycareStaff“.

Þar vísaði hann til gamalla ummæla sinna um að Hvíta húsið væri orðið að dagvistun fyrir aldraða.

Trump var þó ekki hættur og sendi frá sér þrjú tíst til viðbótar á einum klukkutíma. Þar kallaði forsetinn Corker „léttvigtar-þingmann“ sem hefði ekki getað náð endurkjöri. Nú ætli hann að berjast gegn skattalækkunum.

Við það bætti forsetinn við að Corker væri óhæfur í starfi sínum sem formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar.

„Sjáið hvað Bandaríkin hafa staðið sig illa. Hann hefur ekki hugmynd um að allur heimurinn VAR að hlægja að okkur og nota okkur. Fólk eins og litli (liddle) Bob Corker hafa valdið afturförum í Bandaríkjunum. Nú stefnum við fram á við!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×