Spænskir saksóknarar hafa tilkynnt um ákærur á hendur leiðtogum héraðsstjórnar Katalóníu sem stóðu að sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsins á föstudag. Þeir eru sakaðir um uppreisn, uppreisnaráróður og fjárdrátt.
Á meðal þeirra sem eru ákærðir eru Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu. José Manuel Maza, ríkissaksóknari Spánar, lýsti því yfir að þeir ákærður hefðu farið algerlega á svig við stjórnarskrána.
Ákærurnar munu nú fara fyrir dómara sem munu meta þær. Leiðtogar héraðsstjórnarinnar gætu svo verið kallaðir til yfirheyrslu ef ákærurnar fara alla leið innan kerfisins.
Refsingin fyrir uppreisn er allt að 30 ára fangelsi og allt að 15 ára fangelsi liggur við uppreisnaráróðri. Sex ára fangelsi er svo refsingin fyrir fjárdrátt.
Landsstjórn Spánar ákvað að svipta Katalóníu sjálfræði í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingarinnar á föstudag. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, leysti upp héraðsþingið og boðaði til kosninga í Katalóníu 21. desember.
Hundruð þúsunda mótmæltu sjálfstæði Katalóníu í Barcelona í gær. Þrátt fyrir að 90 prósent Katalóna hafi kosið með sjálfstæði frá Spáni í kosningum í byrjun október er ljóst að skiptar skoðanir eru á meðal íbúa héraðsins um hvort Katalónía eigi að vera sjálfstæð eður ei.
Ákæra leiðtoga Katalóna fyrir uppreisn

Tengdar fréttir

Aðstoðarforsætisráðherra Spánar tekur tímabundið yfir stjórn Katalóníu
Búið er að víkja æðstu yfirmenn katalónsku lögreglunnar Mossos frá störfum.

Kallar eftir friðsamlegri andstöðu í Katalóníu
Yfirvöld í Madrid hafa nú tekið yfir stjórn héraðsins og er aðstoðarforsætisráðherra Spánar starfandi forseti Katalóníu.

Hundruð þúsundir gengu gegn aðskilnaði
Meðal þeirra sem tóku þátt í göngunni í dag voru margir sem kölluðu eftir því að Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, yrði handtekinn.