„Þetta er að sjálfsögðu gríðarlegur heiður. Það er alltaf sérstakt að fá platínuplötu en ég get alveg viðurkennt að það er extra sérstakt í Bandaríkjunum enda erum við búsettir þar og höfum verið mest í Ameríku síðustu þrjú ár eða svo,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo.
![](https://www.visir.is/i/E6BAA2FEF6AD4BE511B9A6E33EEB9F98C00AEC060C6D7B5F0397C47F57BB7C36_713x0.jpg)
Lag þeirra Way Down We Go fór á síðasta ári í fyrsta sæti Billboard-listans í Bandaríkjunum í flokki „alternative“ tónlistar. Kaleo hefur undanfarið spilað í Evrópu, Ameríku og Asíu. Í haust hefst svo Kaleo Express túrinn hjá þeim og tónleikadagskráin verður áfram ansi þétt.
Frá Mosó til Ameríku Vegferðin hófst í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Jökull hefur samið lög frá unga aldri og er sjálflærður á gítar. Davíð Antonsson er trommari og Daníel Ægir Kristjánsson bassaleikari. Seinna bættist í hópinn gítarleikarinn Rubin Pollock.
Fyrsta lagið sem náði vinsældum er landsmönnum líklega greypt í minni, Vor í Vaglaskógi, sem þeir fluttu í nýrri og blúsaðri útgáfu. Eftir vinsældir fyrstu smáskífunnar, All the Pretty Girls, gerðu þeir svo plötusamning við Atlantic Records og Warner/Chapell sem fól meðal annars í sér að tónlist þeirra er notuð í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þeir fluttu til Bandaríkjanna í kjölfarið og gera út frá Nashville.
Hér fyrir neðan má sjá myndbandið við Way Down We Go en horft hefur verið á það ríflega 80 milljón sinnum á YouTube.