Erlent

Loftslagsbreytingar munu hrekja tugi milljóna manna á flótta

Kjartan Kjartansson skrifar
Þurrkar hafa valdið hungusneyð á Sahel-svæðinu. Loftslagsbreytingar munu líklega gera svæðið enn þurrara á næstu áratugum.
Þurrkar hafa valdið hungusneyð á Sahel-svæðinu. Loftslagsbreytingar munu líklega gera svæðið enn þurrara á næstu áratugum. Vísir/AFP
Versti flóttamannavandi í sögunni er í uppsiglingu þegar tugir milljóna manna munu þurfa að flýja heimili sín vegna loftslagsbreytinga á næstu áratugum. Í nýrri skýrslu er varað við því að milljónir Afríkubúa muni hrekjast frá heimalöndum sínum til Evrópu.

Umhverfisréttlætissjóðurinn (EJF) birti skýrsluna í gær. Í henni segja háttsettir bandarískir herforingjar og öryggissérfræðingar að flóttastraumurinn af völdum loftslagsbreytinga muni verða margfalt meiri en sá sem hefur verið síðustu árin vegna átakanna í Sýrlandi, að því er kemur fram í frétt The Guardian.

„Ef Evrópa telur sig glíma við vanda með fólksflutninga í dag...bíðiði í tuttugu ár. Sjáið hvað gerist þegar loftslagsbreytingar reka fólk út úr Afríku, sérstaklega Sahel-svæðið [í Vestur- og Mið-Afríku sunnan Sahara], og við erum ekki bara að tala um eina eða tvær milljónir heldur tíu til tuttugu. Það mun ekki fara til suðurhluta Afríku, það mun fara yfir Miðjarðarhafið,“ segir Stephen Cheney, fyrrverandi fylkisforingi stórdeildar Bandaríkjahers í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar hvetja ríki heims, sem koma saman á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í næstu viku, til þess að samþykkja regluverk til að vernda loftslagsflóttamenn og að gera meira til að ná markmiðunum sem sett voru í Parísarsamkomulaginu um að takmarka hlýnun jarðar.

„Loftslagsbreytingar eru óútreiknanleg breyta sem getur leitt til ofbeldis og átaka með hörmulegum afleiðingum þegar hún bætist við félagslega, efnahagslega og pólitíska spennu sem er þegar til staðar,“ segir Steve Trent, framkvæmdastjóri EJF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×