Þegar Barcelona spilar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þá rignir venjulega mörkum en ekki í gær er liðið sótti Olympiacos heim.
Leiknum lyktaði með markalausu jafntefli. Barcelona átti 19 skot í leiknum en ekkert þeirra vildi fara inn í markið.
Næst komst liðið marki er Luis Suarez átti skot í slána. Hann var líka óeigingjarn í eitt skipti er hann komst í dauðafæri. Þá reyndi hann frekar að gefa á Lionel Messi en það gekk ekki.
Olympiacos getur verið stolt af því að vera fyrsta liðið í heil fimm ár sem nær að halda Börsungum markalausum í leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
