Varaformaðurinn biður stuðningsmenn um að anda með nefinu enda séu heitar tilfinningar meðal margra um málið. Hann viðurkennir að samstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsókn sé versti mögulegi bitinn að kyngja.
Eins og Vísir fjallaði um í dag eru fjölmargir stuðningsmenn VG sem líst lítið sem ekkert á að flokkurinn velti svo mikið fyrir sér að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Töluverð umræða hefur skapast um málið í fyrrnefndum Facebook hóp og sá varaformaðurinn sér leik á borði í dag að skrifa pistil um stöðu mála.

„Eins og þið hafið öll heyrt erum við komin í óformlegt samtal við Framsókn og Sjálfstæðisflokk um stjórnarmyndun. Ef það samtal leiðir til formlegra stjórnarmyndunar samninga mun það reynast okkur sem hreyfingu erfitt og heitar tilfinningar eru meðal margra um málið, en akkúrat núna er tíminn til að anda með nefinu.“
Edward minnir á að samtal flokkanna er enn á óformlegu stigi og ekkert hafi verið lagt fram af málefnum enn sem komið er.
„Við förum inn með þá ófrávíkjanlegu kröfu að Katrín verði verkstjóri þessarar ríkisstjórnar og við höfum þau lykilmál sem við töluðum fyrir í kosningabaráttu sem oddamál í umræðum um stjórnarsáttmála. Við höfum með öðrum orðum tækifæri í þessu samstarfi til að hafa raunveruleg áhrif til að breyta íslensku samfélagi og um leið stöðva þá hraðferð sem við höfum verið á í átt að samfélagi ójöfnuðar og hægrimennsku.“

Edward segir rétt að stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum muni ekki leiða til mikilla grundvallabreytinga. Að mörgu leyti megi segja það sama um Framsókn sem muni vafalítið koma í veg fyrir stórar grundvallarbreytingar í einhverjum málum líka.
„En þá þarf að hafa í huga ekki náðist að koma saman stjórn um slíkar breytingar, og var það þó fyrst reynt. Nú talar Samfylking eins og það sé enn hægt, en það er bara ekki svo, ævinlega þarf að kippa upp í þann vagn annaðhvort Flokk fólksins, Miðflokknum eða Framsókn og ekki vill Framsókn Viðreisn, né eins manns meirihluta og ég ætla ekkert að ræða möguleikann á M. Hvað Flokk fólksins varðar, þá er rétt sem margir benda á að Inga og margir í hennar röðum hafa hjartað á réttum stað, og brenna fyrir fátækt sem er raunveruleg hér á landi. En við verðum að athuga að það er sterk taug útlendingaandúðar í þeirra röðum og þær lausnir sem þau hafa lagt fram til að leysa úr fátækt hér á landi eru einfaldlega úr korti.“

Varaformaðurinn segir samtal VG við Sjálfstæðisflokk og Framsókn vera það eina sem standi í vegi fyrir hreinni hægristjórn, sem reyndar verði vafalítið skrautleg.
„Það gæti verið voða gaman að vera í stjórnarandstöðu við einhverskonar BDMF kombó en viljum við virkilega hafa það á samviskunni gagnvart þjóðinni að enn glatist 4 ár í uppbyggingu innviða, heilbrigðis- og menntakerfis öllum til handa? Málefnin munu alltaf ráða för og Katrín mun stýra þessu, það er útgangspunkturinn. Bíðum eftir málefnasamning/stjórnarsáttmála og tökum efnislega umræðu um hann.“
Edward minnir á að VG geti haft áhrif, ákall sé um að VG hafi áhrif og það verði að láta reyna á umræðu um málefnin.
Rætt var við formenn allra flokkanna þriggja í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Fréttina má sjá hér að neðan.
Þingflokkar VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks funduðu fyrir hádegi í dag þar sem formenn heyrðu hljóðið í sínum flokksmönnum. Óformlegar viðræður flokkanna þriggja héldu áfram eftir hádegi í dag. Til stendur að halda áfram fundi á morgun.
Ríkisstjórn flokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks (16), Vinstri grænna (11) og Framsóknarflokks (8) hefði 35 þingmenn.