Erlent

Brexit: Bretland fær tvær vikur til að útskýra ákveðin lykilatriði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
David Davis og Michel Barnier á blaðamannafundinum í dag.
David Davis og Michel Barnier á blaðamannafundinum í dag. vísir/getty
Evrópusambandið gefur yfirvöldum í Bretlandi tvær vikur til þess að útskýra ákveðin lykilatriði varðandi útgöngu landsins úr ESB eða að öðrum kosti slaka á kröfum sínum.

Þetta kom fram í máli Michel Barnier á blaðamannafundi í Brussel í dag en Barnier er aðalsamningamaður ESB í Brexit. Barnier átti fund í dag með David Davis, Brexit-ráðherra Bretlands, sem segir að það sé kominn tími til fyrir bæði ESB og Bretland að fara að vinna að því að finna lausnir.

Á blaðamannafundinum sagði Barnier að Bretland þyrfti að gefa það upp á næstu tveimur vikum hvað það hyggst borga til ESB svo það geti uppfyllt skilyrði sín gagnvart sambandinu í tengslum við Brexit.

Annars munu samningaviðræðurnar ekki hafa skilað tilætluðum árangri áður en Evrópuráðið kemur saman til fundar í desember.

Fundur Barnier og Davis í dag sneri að borgaralegum réttindum, írsku landamærunum og svo upphæðinni sem ESB vill fá frá Bretlandi við útgönguna úr sambandinu.

Þeir sögðu báðir að samningaviðræðunum miðaði áfram hvað varðar það að ríkisborgarar ESB muni halda sínum réttindum í Bretlandi eftir Brexit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×