Fótbolti

Strákarnir okkar næst bestir í sínum flokki: Ísland getur strítt þeim stóru á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Ernir
Dregið verður til riðlakeppni HM 2018 í Rússlandi á föstudaginn en í fyrsta sinn í sögunni verður íslenska landsliðið í pottinum þegar dregið verður.

Ísland er í þriðja styrkleikaflokki ásamt Danmörku, Svíþjóð, Senegal, Kosta Ríka, Túnis, Egyptalandi og Íran og getur því ekki dregist í riðil með neinum af þessum þjóðum.

Á vef bandaríska íþróttatímaritsins Sports Illustrated er liðunum styrkleikaraðað innan styrkleikaflokkana en þar á bæ eru menn á því að íslenska liðið sé það næst besta í þriðja styrkleikaflokki.

Ef litið er til FIFA-listans ætti Ísland að vera þriðja sterkasta liðið í þriðja styrkleikaflokki en strákarnir okkar eru í 22. sæti. Danir eru efstir á FIFA-listanum af liðunum átta í þessum styrkleikaflokki og eru taldir sterkastir af þeim.

„Er einhver sem vonast ekki til þess að Ísland komi mest á óvart af þessum liðum? Ísland komst í gegnum virkilega sterkan riðil í undankeppninni og sýndi að það á svo sannarlega heima á þessu sviði löngu áður en HM verður stækkað í 48 lið. Það vita allir hvað Ísland stendur fyrir og það getur svo sannarlega komið einhverjum af stóru liðunum í vandræði á leið þeirra að titlinum,“ segir í umsögn um strákana okkar.

Svíar eru fyrir ofan Íslendinga á FIFA-listanum en komast aðeins í fjórða sætið í styrkleikaröðun Sports Illustrated innan þriðja styrkleikaflokks á eftir Íslandi og Kostaríka sem er í 26. sæti á FIFA-listanum.

Trúin virðist ekki mikil í garð Senegal sem er í sjötta sæti í styrkleikaröðun SI en er samt sem áður í 23. sæti FIFA-listans, átta sætum á undan Egyptalandi sem er fyrir ofan það í þessari styrkleikaröðun. Íran og Túnis reka svo lestina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×