Kyle Kuzma skoraði 22 stig og Kentavious Caldwell-Pope var með 11 af 21 stigi sínu í fjórða leikhlutanum þegar Los Angeles Lakers vann 103-94 sigur á Chicago Bulls. Þetta var eini leikur næturinnar.
Fyrri hálfleikurinn var hreinasta hörmung hjá Los Angeles Lakers liðinu sem var í framhaldinu lent 61-42 undir snemma í seinni hálfleik. Liðið fór þá í gang og náði 38-19 spretti sem snéri leiknum.
Kentavious Caldwell-Pope kom Lakers liðinu síðan yfir í fyrsta sinn frá því í fyrsta leikhlutanum þegar 3:08 mínútur voru eftir. Caldwell-Pope bætti síðan við tveimur þristum og nánast kláraði leikinn með því.
Nýliðinn Lonzo Ball var með 8 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum en hann klikkaði á sjö af fyrstu átta skotum sínum í leiknum.
Denzel Valentine skoraði 17 stig fyrir Chicago Bulls og Antonio Blakeney var með 15 stig. Þetta var sjöunda tap Bulls-liðsins í átta leikjum og liðið hefur aðeins unnið 3 af 15 leikjum á tímabilinu.