Körfubolti

Sigurgöngu Cleveland Cavaliers lauk í Indiana

Magnús Bjarnason skrifar
Lebron James átti stórleik sem fyrr þrátt fyrir tapið með 29 stig og 10 fráköst.
Lebron James átti stórleik sem fyrr þrátt fyrir tapið með 29 stig og 10 fráköst. Vísir/Getty
Sigurgöngu Cleveland Cavaliers í NBA deildinni lauk í nótt í Indiana þar sem Indiana Pacers hafði betur í jöfnum leik, 106-102. Cavaliers höfðu ekki tapað í síðustu 13 leikjum, en liðið fer niður í 3. sæti austurdeildar NBA eftir tapið. 

Victor Oladipo fór fyrir liði Pacers með 33 stig og 8 fráköst. Var hann sérstaklega drjúgur á lokasprettinum þegar hann setti nokkur mikilvæg skot niður. Pacers eru á mikilli siglingu, hafa unnið níu af seinustu tólf leikjum, og eru fyrsta liðið til að vinna Cavaliers tvisvar á þessu tímabili. 

Lebron James átti sem fyrr góðan leik og var nálægt því að enda leik með þrefalda tvennu; 29 stig, 10 fráköst og átta stoðsendingar. Þá skoraði Kevin Love 20 stig. 

Í San Antonio tryggði Manu Ginobili heimamönnum í Spurs dramatískan sigur á lokasekúndum leiksins gegn Boston Celtics með þriggja stiga körfu, 105-102.

Lamarcus Aldridge var stigahæstur í liði Spurs með 27 stig en Kyrie Irving var stigahæstur að vanda fyrir Boston, með 36 stig. Eftir erfiða byrjun á tímabilinu hefur gengi Spurs snúist við á síðustu vikum og situr liðið í 3. sæti vesturdeildar NBA, á eftir Golden State Warriors og Houston Rockets. 

Warriors mörðu sigur í Detroit gegn heimamönnum í Pistons, 102-98. Kevin Durant fór á kostum í liði Warriors í fjarveru Steph Curry, sem verður frá næstu vikur vegna ökklameiðsla. Endaði hann leik með 36 stig, 10 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 varin skot. Ekki amaleg tölfræði það. 

Úrslitin í nótt:

Detroit Pistons - Golden State Warriors: 98-102

Indiana Pacers - Cleveland Cavaliers: 106-102

Orlando Magic - Denver Nuggets: 89-103

Chicago Bulls - Charlotte Hornets: 119-111

New Orleans Pelicans - Sacramento Kings: 109-116

Milwaukee Bucks - Dallas Mavericks: 109-102

Memphis Grizzlies - Toronto Raptors: 107-116

San Antonio Spurs - Boston Celtics: 105-102

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×