Ríkisstjórn Íslands fjallaði um siðareglur ráðherra á fundi sínum í morgun og verður áframhaldandi umræða um reglurnar á vettvangi ríkisstjórnar á næstu vikum með það fyrir augum að meta hvernig megi skerpa á tilteknum atriðum er varða efni reglnanna og framkvæmd. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Ákveðið var á fundinum að forsætisráðherra myndi kalla til utanaðkomandi sérfræðinga til ráðgjafar ekki einungis varðandi siðareglur ráðherra heldur einnig varðandi heilindi í opinberum störfum í víðara samhengi.
Ráðgert er að setja á fót starfshóp sem mun ráðleggja og aðstoða við að ná fram eftirfarandi þáttum úr stjórnarsáttmála: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Annar þáttur er breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana“.
Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu til forsætisráðherra eigi síðar en þann 1. september á næsta ári.
