Justin hélt Ted-fyrirlestur fyrir stuttu þar sem hann talaði meðal annars um hlutverk og stöðu karlmanna í samfélaginu. Þá kom hann einnig inn á hve leiður hann væri á því að hann ætti að vera staðalímynd af karlmanni. Hann fjallaði um þann kassa sem karlmenn eru settir í og tók dæmi af samfélagsmiðlum, þar sem karlmenn fylgdu honum um leið og hann talaði um líkamsrækt og hreysti en brugðust ekkert við þegar hann tjáði tilfinningar sínar og ást sína á konu sinni og börnum.
Áreiti í heitum potti
Á TedWomen-ráðstefnunni talaði Justin við tímaritið Glamour og sagðist standa við bakið á öllum sem hafa stigið fram og sagt frá kynferðisofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir. Hann hefur nefnilega einnig orðið fyrir áreiti.„Þegar ég var um það bil 21 árs var ég nýr í bransanum. Þáverandi kærasta mín gaf mér tíma í heilsulind. Ég man að það voru heitir pottar og gufubað og alls kyns svoleiðis þarna. Þetta var staður fyrir fínna fólk, ríkari stráka. Ég fór í heita pottinn og sá mann horfa til mín. Ég sá hann horfa á mig, hoppa úr hinum heita pottinum og koma til mín og segja: Hvað gerir þú? Og ég sagði: Ég er leikari. Hann sagðist vera framleiðandi og síðan byrjuðum við að tala um allar kvikmyndirnar sem hann hafði framleitt og allt fólkið sem hann þekkti. Að hann væri vinur Clooney, Cheadle, og alls kyns fólks. Hægt og róleg reyndi hann að fá mig til að fara úr sundskýlunni út af því að ég var í skýlu en hann var nakinn,“ segir Justin, sem yfirgaf heita pottinn um leið og hann gerði sér grein fyrir hvað væri í gangi.
En þetta er ekki í eina skiptið sem Justin hefur verið áreittur. Hann hefur líka verið áreittur af konum.
„Ég hef verið áreittur af konum í valdastöðum. Valdamiklar konur hafa gripið í rassinn minn oft og mörgu sinnum.“
Leikarinn segir jafnframt að hann hafi einhvern tímann hagað sér ósæmilega við konur, og viðurkennir það fúslega.
„Ég er viss um að ég hef látið konum líða óþægilega á einhverjum tímapunkti í lífinu, annað hvort með því að segja eða gera eitthvað karlrembulegt. Eina sem ég get sagt er: Fyrirgefið. Ég var barnalegur. Ég var ungur. Ég var í ruglinu og ég er að reyna að bæta mig.“