Erlent

Tony Blair ætlar sér að koma í veg fyrir Brexit

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Tony Blair var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1997-2007.
Tony Blair var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1997-2007. Vísir/Getty
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segist nú vinna að því að koma í veg fyrir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu. Hann telur að kjósendur eigi skilið aðra þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að nú sé ljóst að ákveðin kosningaloforð hafi verið lygi. Þetta sagði Blair í viðtali við þáttinn The World This Weekend á BBC Radio 4 í dag.

Blair segir að ástandið á bresku heilbrigðisþjónustunni sé til skammar og að ljóst sé að ekki standi til að standa við loforð um töluverða aukningu fjármagns til heilbrigðismála.

„Þegar staðreyndir breytast, þá finnst mér fólk eiga rétt á því að skipta um skoðun,“ segir Blair.

Blair hefur ávallt verið andsnúinn því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu. Aðspurður um hvort markmið hans sé að koma alfarið í veg fyrir Brexit viðurkennir hann að svo sé.

„Mín trú er sú að þegar allt kemur til alls, þegar þjóðin sér þetta nýja samband þá mun fólk átta sig á því að þetta mun annað hvort skaða landið mikið eða með útgöngu úr ESB, útgöngu úr sameinuðum markaði, munum við á einhvern hátt reyna að endurskapa kosti þess á öðrum vettvangi. Þá tel ég að margir muni hugsa með sér „hver er tilgangurinn?“,“ segir Blair

Vilji þjóðarinnar ekki óbreytilegur

Hann segist ekki sammála því að ný atkvæðagreiðsla muni fara gegn vilja þjóðarinnar.

„Vilji þjóðarinnar er ekki óbreytilegur. Fólk getur skipt um skoðun með breyttum aðstæðum.“

„Margir kusu með Brexit á þeim grundvelli að ef þú ferð út úr Evrópu þá mun allur peningurinn koma til baka og við getum varið honum í heilbrigðisþjónustu. Það var mjög sértækt loforð,“ segir hann.

„Nú er orðið mjög ljóst að ég tel að í fyrsta lagi er ekki til neinn auka peningur fyrir heilbrigðisþjónustuna vegna Brexit og í öðru lagi munum við í raun borga minna til heilbrigðisþjónustunnar, en ekki meira, vegna þess að hagvöxtur fer minnkandi og svo erum við komin með risareikning frá Evrópusambandinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×