Eldur kom upp í bifreið við Víkingsheimilið í Fossvogi á áttunda tímanum í gærkvöldi. Að sögn lögreglu reyndu vegfarendur að ráða niðurlögum eldsins með handslökkvitækjum - „en ekkert gekk fyrr en slökkvilið mætti á vettvang.“
Bifreiðin er sögð hafa skemmst mikið í brunanum og á eigandi hennar, í samráði við tryggingafélag, að hafa gert ráðstafanir varðandi bifreiðina. Hverjar þær ráðstafanir kunna vera er ekki tilgreint í skeyti lögreglunnar, ekki frekar en eldsupptök eða hvort grunur leiki á að eldur hafi verið borinn að bifreiðinni.
Um svipað leyti stöðvaði lögreglan teiti óreglufólks í Árbæ. Þar framvísaði einn gestanna því sem lögreglan telur vera fíkniefni.
Þá voru afskipti höfð af pari sem ók á vespu í Kópavogi skömmu eftir klukkan 22. Í samtali við lögreglu viðurkenndi karlinn að þau hefðu stolið vespunni og við leit lögreglu á heimili parsins fundust fíkniefni.
Handslökkvitækin dugðu ekki til
Stefán Ó. Jónsson skrifar
