Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að fresta fyrirhugaðri ferð sinni til Ísraels. Varaforsetinn hafði ætlað sé að flytja ræðu í ísraelska þinginu á mánudag en talsmaður þingsins segir að henni hafi verið frestað „mögulega til miðvikudags“.
Ísraelski fjölmiðillinn Haaretz greinir frá þessu. Aðkoma Bandaríkjastjórnar í friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs er í uppnámi eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði Bandaríkin nú viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og Bandaríkin myndi hefja undirbúning flutnings sendiráðs Bandaríkjanna í Ísrael frá TelAvív til Jerúsalem.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, ákvað fyrr í vikunni að aflýsa fyrirhuguðum fundi hans og Pence.
Ísraelskir fjölmiðlar hafa sagt að ákvörðun Pence að fresta ferð sinni til landsins skýrist ekki af deilunni um stöðu Jerúsalem heldur að hans sé þörf á Bandaríkjaþingi vegna skattalagabreytinga.
Palestínumenn hafa krafist þess að austurhluti Jerúsalem verði framtíðarhöfuðborg sjálfstæðs ríkis Palestínumanna.

