Sjö farþegar sem voru í hópferðabifreið er hafnaði utan vegar eftir árekstur við fólksbíl í grennd við Kirkjubæjarklaustur í fyrradag eru enn á sjúkrahúsi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum.
Tólf voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar í kjölfar slyssins en einn farþegi var úrskurðaður látinn á slysstað. Í hópferðabifreiðinni voru 44 kínverskir ferðamenn auk bifreiðastjóra og leiðsögumanns.
Í tilkynningu frá Landspítalanum segir að af þeim sjö sem enn dveljast á spítala séu fimm á almennum legudeildum en tveir á gjörgæsludeild. Stefán Hrafn Hagalín deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans staðfesti í samtali við Vísi að líðan sjúklinganna fimm sem ekki eru á gjörgæslu sé nokkuð góð og vonast er til þess að tveir þeirra verði útskrifaðir í dag.
Rútubílstjórinn sem ók rútunni er meðal þeirra sem hafa verið útskrifaður af spítalanum. Rútan var á vegum Hópferðabíla Akureyrar.
Stefán vildi ekki veita nánari upplýsingar um líðan þeirra tveggja sem enn eru á gjörgæslu en ákvörðun um að veita ekki slíkar upplýsingar var tekin á fundi í gær.
Mikið álag var á sjúkrahúsinu á miðvikudaginn vegna slyssins en að sögn Ólafs Baldurssonar framkvæmdastjóra lækninga á Landspítalanum gekk samvinna þeirra sem komu að aðgerðunum vel.
„Ljóst er að starfsfólk bráðamóttöku, gjörgæslu, skurðdeilda og skurðstofa Landspítala hefur enn einu sinni unnið þrekvirki sem við erum öll stolt af,“ segir Ólafur.
