Talið er að um 600 tonnum af olíu hafi verið dælt úr skipinu Lighthouse Winmore, sem skráð er í Hong Kong, yfir í skip frá Norður-Kóreu á hafi úti. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt Kínverja fyrir að hafa staðið að smyglinu. Þeir neita því þó. Skipið er í leigu félags frá Taívan.
Sjá einnig: Trump reiður Kínverjum
Samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar var skipið tekið yfir þar sem það var í höfn í Suður-Kóreu þann 24. nóvember. Smyglið er sagt hafa átt sér stað þann 19. október.
Skipinu var siglt að landi í Yeosu í Suður-Kóreu þann 11. október. Þar var olía tekin um borð og stóð til að flytja hana til Taívan samkvæmt stjórnendum skipsins. Skipið náði hins vegar aldrei til Taívan. Þess í stað var Lighthouse Winmore siglt til móts við fjögur skip frá Norður-Kóreu í austur-Kínahafi. Þar var olían flutt um borð í þau skip.
Olíuflutningarnir voru myndaðir með gervihnetti Bandaríkjanna og birti Fjármálaráðuneyti ríkisins myndir af þeim í nóvember.

Vísað er í fréttir í Suður-Kóreu þar sem embættismenn segja gervihnetti hafa myndað um 30 atvik þar sem olía hafi verið flutt yfir í skip frá Norður-Kóreu með ólöglegum hætti síðan í október.
Þá sagði Trump í nýlegu viðtali við New York Times að hann hefði hingað til „tekið vægt á“ Kínverjum í viðræðum þeirra um viðskipti á milli ríkjanna vegna þess að hann vildi fá aðstoð þeirra til að þvinga Norður-Kóreu til að láta af kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunum ríkisins. Nú íhugar hins vegar að hætta því.
„Olía er að fara til Norður-Kóreu. Það var ekki samkomulagið mitt. Ef þeir hjálpa okkur ekki með Norður-Kóreu, þá ætla ég að gera það sem ég hef sagt að ég ætli að gera,“ sagði Trump.