Handbolti

Björgvin Páll: Skjern er félag sem ég hef horft til síðustu ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin Páll í leik með Haukum.
Björgvin Páll í leik með Haukum. vísir/anton
Björgvin Páll Gústavsson skrifaði undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið Skjern í vikunni. Þessar fréttir komu nokkuð á óvart en Björgvin Páll hafnaði tilboði frá Flensburg í sumar. Hann gengur í raðir Skjern frá Haukum næsta sumar.

„Mjög margir eru hissa á því að ég sagði nei við Flensburg en já við Skjern. Þetta hentar betur fyrir mig persónulega og fjölskylduna. Maður fékk nóg af Þýskalandi í bili. Það er ekki eins fjölskylduvænt. Hér er æft einu sinni á dag og tíma sem er aðeins kristilegri,“ sagði Björgvin Páll í samtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni í gær.

Björgvin Páll er nýbúinn að eignast tvíbura og segir Skjern haldi vel utan um fjölskyldur leikmanna liðsins.

„Fyrsta símtalið var þannig að þeir vildu fá mig og fjölskylduna til Skjern, ekki bara mig. Það hljómaði rosalega vel. Þeir eru tilbúnir að gera allt fyrir mann. Svo er þetta frábært lið sem er efst í Danmörku sem stendur. Þetta er mjög spennandi verkefni sem verður geggjað að taka þátt í,“ sagði Björgvin Páll.

Lið Skjern er afar vel mannað. Þar má m.a. finna leikmenn á borð við Anders Eggert, Kasper Søndergaard og Bjarte Myrhol. Næsta sumar kemur svo Thomas Mogensen frá Flensburg.

Félagið leggur mikið upp úr góðu vinnuumhverfi og þægilegu andrúmslofti.

„Þetta snýst ekki endilega um álagið, heldur hvernig hlutirnir eru gerðir. Skjern vinnur markvisst að því að vera besti vinnustaður í Danmörku. Ef leikir tapast er ekki æft 2-3 daginn eftir, heldur vandamálið krufið. Þetta er mannlegra en í Þýskalandi og aðeins líkara því sem maður þekkir á Íslandi,“ sagði Björgvin Páll.

Markvörðurinn öflugi var ekki leitast eftir því að komast aftur út í atvinnumennsku, heldur kom tækifærið óvænt upp í hendurnar á honum.

„Ég var alls ekki að leitast eftir þessu. Ég var búinn að fá 4-5 fyrirspurnir síðustu mánuði sem ég henti frá mér. Svo kom Skjern upp og það er félag sem ég hef horft til síðustu ár,“ sagði Björgvin Páll.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×