Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hefur lýst því yfir að spænska ríkið hafi verið sigrað eftir að aðskilnaðarsinnar tryggðu sér meirihluta þingsæta í kosningunum til héraðsþings í gær.
Puigdemont er nú í Brussel í sjálfskipaðri útlegð og sagði niðurstöður kosninganna mikinn sigur fyrir „lýðveldi Katalóníu“.
Aðskilnaðarsinnar verða með nauman meirihluta á héraðsþinginu, nokkuð minni en á síðasta þingi, sem var leyst upp af spænska ríkinu með vísun í 155. grein stjórnarskrárinnar. Spánarstjórn boðaði til kosninganna.
Borgaraflokkurinn (Ciudadanos) verður stærsti flokkurinn á þinginu með rúmlega fjórðung atkvæða, en hann styður áframhaldandi samband Katalóníu og Spánar. Ekki er því ljóst að svo stöddu hverjum verður veitt umboð til myndunar stjórnar. Inés Arrimadas, formaður Ciudadanos, sagði flokkinn hafa unnið sigur, en viðurkenndi að erfitt yrði að mynda stjórn þó að hún myndi láta á það reyna.
Flokkur Rajoy beið afhroð
Partit Popular, flokkur Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, beið afhroð í kosningunum og tryggði sér einungis ellefu af 135 þingsætum sem í boði voru.
Þegar búið var að telja nær öll atkvæðin voru flokkar aðskilnaðarsinna – JxCat, flokkur Puigdemont, vinstriflokkurinn ERC og Þjóðareining (CUP) – með sjötíu þingsæti og þar með meirihluta.
Puigdemont segir spænska ríkið hafa verið sigrað

Tengdar fréttir

Miklar líkur á að kona verði næsti leiðtogi Katalóníu
Kjörstaðir hafa verið opnaðir í Katalóníu þar sem kosið verður til nýs héraðsþings í dag.

Sjálfstæðissinnar í Katalóníu halda meirihluta sínum
Þrír flokkar sjálfstæðissinna eru með meirihluta en hægriflokkur sem er mótfallinn sjálfstæði er stærsti flokkurinn á héraðsþingi Katalóníu þegar flest atkvæði hafa verið talin.