Handbolti

Þórir um Noru Mörk: Hefði ekki getað verið á betri stað en hjá okkur í landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hergeirsson ræðir við Noru Mörk á HM í Þýskalandi.
Þórir Hergeirsson ræðir við Noru Mörk á HM í Þýskalandi. Vísir/Getty
Nora Mörk, ein besta handboltakona heims, varð fyrir áfalli fyrr í haust þegar brotist var inn í síma hennar og viðkvæmum myndum af henni komið í dreifingu. Málið fékk gríðarlega athygli norskra fjölmiðla og hafði málið mikið áhrif á Mörk.

Mörk var með norska landsliðinu þegar hún komst að því að myndirnar væru komnar í dreifingu og sagðist hún í samtali við norska fjölmiðla í nóvember að hún hafi nánast lamast við fréttirnar.

Sjá einnig: Viðkvæmum myndum af einni bestu handboltakonu heims dreift á netinu

Þórir Hergeirsson er þjálfari norska landsliðsins sem vann silfurverðlaun á HM í handbolta sem lauk í Þýskalandi um helgina. Mörk var lykilmanneskja Norðmanna á mótinu og spilaði frábærlega. Hún var markahæsti leikmaður mótsins með 66 mörk í 97 skotum.

Nora Mörk í leik með Norðmönnum í úrslitaleik HM.Vísir/Getty
„Þetta hefur verið mikil krísa fyrir hana og allt haustið hennar fór í þetta mál,“ sagði Þórir í samtali við íþróttadeild en fimmtán menn hafa verið kærðir fyrir að dreifa myndunum.

„Þetta er nú orðið að sakamáli og er í rannsókn. Þeir sem eru sekir verða að fá sína refsingu,“ sagði Þórir enn fremur.

Sjá einnig: Krefur dólgana sem dreifðu nektarmyndum af henni um rúmar 28 milljónir

Þegar leikmannahópur Noregs kom saman fyrir HM í Þýskalandi var Mörk tekið opnum örmum að sögn Þóris. „Við reyndum að gera lífið eins auðvelt fyrir hana og hægt var. Þetta var kannski besti staðurinn sem hún gat verið á - að vera með liðsvinkonum sínum í verkefni sem hún elskar og í íþrótt sem hún elskar,“ sagði Þórir sem hrósaði Mörk fyrir frammistöðuna á mótinu.

„Hún spilaði mjög vel. Hún var ef til vill svolítið tóm í úrslitaleiknum og ekki ólíklegt að það hafi verið komin þreyta í hana. En hún skilaði svo sannarlega sínu á mótinu og gott betur.“


Tengdar fréttir

„Ég er stoltur af silfrinu“

Þórir Hergeirsson náði ekki að verja heimsmeistaratitilinn með Noregi eftir tap fyrir Frakklandi í úrslitaleiknum á sunnudag. Hann segir erfitt að útskýra af hverju grundvallarþættir í leik liðsins brugðust þegar mest á reyndi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×