Erlent

Trump sögulega óvinsæll eftir eitt ár í embætti

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsmenn Trump eru í minnihluta í Bandaríkjunum ef marka má nýja skoðanakönnun.
Stuðningsmenn Trump eru í minnihluta í Bandaríkjunum ef marka má nýja skoðanakönnun. Vísir/AFP
Aðeins tveir af hverjum fimm Bandaríkjamönnum eru ánægðir með störf Donalds Trump Bandaríkjaforseta samkvæm nýrri skoðanakönnun. Enginn samtímaforseti hefur reynst eins óvinsæll eftir fyrsta ár sitt í embættinu.

Vinsældir Trump dragast saman um tvö prósentustig frá því í síðustu könnun NBC-fréttastofunnar og Wall Street Journal. Segjast nú 39% svarenda ánægðir með störf forsetans.

Þrátt fyrir að efnahag Bandaríkjanan hafi haldið áfram að vegna betur síðasta árið hefur nær óslitin röð hneykslismála og umdeildra uppákoma markað fyrsta ár Trump sem forseta. Þar ber hæst opinber rannsókn á því hvort að forsetaframboð hans hafi átt í samráði við rússnesk stjórnvöld um að hafa áhrif á úrslit kosninganna árið 2016.

Af þeim 57% sem eru óánægð með Trump í könnuninni segist 51% vera „mjög óánægð“ með hann. Vinsældir Trump voru innan við 50% hjá öllum lýðfræðilegum hópum fyrir utan repúblikana. Á meðal þeirra eru 70% ánægð með forseta sinn.

Þrátt fyrir sögulegar óvinsældir fyrir forseta á þessum tímapunkti ferilsins hafa vinsældir Trump ekki verið meiri en nú frá því í maí samkvæmt mælingu Five Thirty Eight.

Þegar svarendur í könnun NBC og WSJ voru spurðir að því hvaða orð lýsti best fyrsta ári Trump í embætti var algengasta svarið að fólk væri „fullt ógeðs“ [e. Disgusted].  Alls nefndu 38% svarenda það orð. Fjórðungur sagði „óttasleginn“ og í þriðja sæti, einnig með tæplega fjórðung svara, var „vongóður“. „Stoltur“ og „reiður“ voru með svipað hlutfall svara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×