Ísland, Svíþjóð og Serbía geta öll endað með jafnmörg stig eftir leiki dagsins og aðeins tvö þeirra komast þá áfram í milliriðil. Þá munu úrslitin úr innbyrðisleikjum þessa þriggja liða ráða úrslitum.
Íslenska liðið tryggir sér sigur með því að ná í stig í leiknum á móti Serbum og íslenska liðið má einnig tapa með þremur mörkum eða minna. Vinna Serbarnir hinsvegar stærri sigur þá sitja íslensku strákarnir eftir í riðlinum.
Það besta fyrir sænska landsliðið væri að Serbarnir færu með þeim í stað Íslendinga og blaðamaður Dagbladet í Noregi vakti athygli á því í gær að svo virtist sem Svíar hafi leyft Serbum að skora síðustu mörkin sín í 30-25 sigri Svíþjóðar á Serbíu á sunnudaginn.

Serbar skoruðu tvö mörk á síðustu 53 sekúndunum í leiknum þar af lokamarkið á síðustu sekúndu leiksins þar sem var eins og sænski markvörðurinn Mikael Appelgren leyfði Serbunum að skora.
Ástæðan er að Svíarnir vilja taka stig með sér í milliriðilinn og þau fá þau ekki nema Serbía komist áfram á kostnað íslenska landsliðsins.
Fyrir leikina í kvöld eru Svíar +3, Ísland er +2 en Serbarnir -5. Hefði Svíarnir haldið sjö marka forystu sinni á lokamínútum þá hefði markatalan verið: Svíar +5, Ísland er +2 en Serbarnir -7. Þá hefðu Serbar þurft að vinna íslenska liðið með fimm mörkum.
Hvað svo sem satt reynist þá er það í höndum íslensku strákanna að klára dæmið í kvöld. Vinni íslenska liðið leikinn á móti Serbíu þá er öruggt að liðið fer áfram með tvö stig inn í milliriðilinn.