Aðdáendur Kardashian fjölskyldunnar, og þeir eru nokkrir, tóku því andköf þegar þeir sáu stiklu úr nýjasta þætti raunveruleikaseríunnar. Þátturinn hefur verið klipptur í tvo þætti þar sem lofað er stórum fréttum úr herbúðum fjölskyldunnar. Þættirnir tveir verða sýndir um helgina á sjónvarpsstöðinni E!
Það er nokkuð ljóst að einhver tilkynning mun eiga sér stað í þessum tveimur þáttum en hvort að verið sé að svipta hulunni af enn einni óléttunni hjá einni frægustu fjölskyldu í heimi verða aðdáendur að bíða og sjá. Þættirnir munu eflaust fá gott áhorf eftir þessa dramatísku stiklu.
Kylie Jenner er í sambandi með tónlistarmanninum Travis Scott en systur hennar Kim og Khloé eiga von á sér á þessu ári. Nokkuð er síðan Kylie Jenner sást opinberlega og þá þótti það ýta verulega undir sögusagnirnar þegar hana var ekki að finna á árlegu jólakorti Kardashian fjölskyldunnar.