Körfubolti

Leikmenn Chicago Bulls fengu að bjóða mömmunum sínum með til New York

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mömmurnar samankomnar.
Mömmurnar samankomnar. Mynd/Twitter/@chicagobulls
Það voru óvenjulegir gestir í einkaflugvél Chicago Bulls á leiðinni í NBA-leik í New York sem fór fram í nótt.

Chicago Bulls vann þar frábæran sigur á New York Knicks liðinu, 122-119, eftir tvíframlengdan leik þar sem Finninn Lauri Markkanen setti persónulegt met með því að skora 33 stig.

Leikurinn fór fram í Madison Square Garden í New York og með í för voru mömmur flest allra leikmanna Bulls liðsins.

Leikmenn Chicago Bulls fengu nefnilega að bjóða mömmunum sínum með til New York. Það vantaði bara þrjár en mömmur Lauri Markkanen, Niko Mirotic og Paul Zipser voru fjarverandi enda allar búsettar utan Bandaríkjanna.

Leikmenn og mæður þeirra fengu að eyða miklum tíma saman í þessari ferð til New York en félagið hafði skipulagt skemmtilega ferð þar sem mömmurnar voru í aðalhlutverki.





Það bjuggust flestir við litlu af Chicago Bulls liðinu í vetur enda hefur verið hröð endurnýjun á leikmannahópnum en þetta lið hefur staðið sig frábærlega síðustu mánuði.

Nýliðarnir Kris Dunn og Lauri Markkanen hafa báðir spilað mjög vel og þá hafa þeir Niko Mirotic og Bobby Portis komið sterkir til baka eftir að hafa lent í slagsmálum á æfingu rétt fyrir tímabilið.

Hér fyrir neðan má sjá leikmenn Chicago Bulls hlaupa í gegnum „mömmugöngin“ fyrir leikinn.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×