Tvær stúlkur og foreldrar þeirra fundust látin á heimili fjölskyldunnar í Bjärred, vestur af Lundi. Yfirmaður fjölskylduföðurins hafði gert lögreglu viðvart eftir að faðirinn hafði ekki skilað sér til vinnu þann daginn, sama dag og ráðstefna sem hann var að skipuleggja fór fram.
Lögregla kom svo að fjölskyldunni látinni og gaf það fljótt út að enginn utanaðkomandi væri grunaður um verknaðinn.
Ekki hefur verið gefið upp hvað hafi dregið fólkið til dauða. Ekkert bendi þó til að um óhapp hafi verið að ræða.
Fengu heimakennslu
Á fréttamannafundi fulltrúa sveitarfélagsins í gær kom fram að stúlkurnar tvær, sem voru fjórtán og ellefu ára, hafi fengið heimakennslu um margra ára skeið „ af læknisfræðilegum ástæðum“. Þetta kemur fram í frétt Aftonbladet.
Margareta Strand Karlsson, skólastjóri í skóla yngri stúlkunnar, lýsti því hvernig starfsmenn skólans hafi lengi reynt að aðstoða fjölskylduna. „Þetta var fjölskylda í djúpri krísu sem þjáðist vegna þeirra aðstæðna sem hún var í,“ segir skólastjórinn án þess að útskýra nánar hverjar þær aðstæður voru.
Lögregla rannsakar málið sem morð og reynir nú að draga upp mynd af því hvað hafi gerst og af hverju. Nánir fjölskyldumeðlimir hafa verið teknir í yfirheyrslu til að fá skýrari mynd af högum fjölskyldunnar og þá hefur lögregla verið að fínkemba húsið í leit að vísbendingum.