Innlent

Rændu ungan mann í undirgöngum í Breiðholti

Ungi maðurinn náði að tilkynna lögreglu um ránið þegar hann komst heim til sín.
Ungi maðurinn náði að tilkynna lögreglu um ránið þegar hann komst heim til sín. Vísir/Pjetur
Þrír menn börðu ungan mann í andlitið og rændu hann síma og sígarettum í undirgöngum við Skógarsel í Breiðholti í gærkvöldi. Þá voru tennur brotnar í manni í slagsmálum í heimahúsi við Laugateig.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að ungi maðurinn sé 19 ára gamall. Ránið hafi átt sér stað þegar hann átti leið um undirgöngin um kl. 18:45 í gærkvöldi. Mennirnir þrír hafi beitt hann ofbeldi og krafið hann um síma og sígarettur. Hann hafi náð að tilkynna um ránið þegar hann komst heim til sín.

Skömmu fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi á Laugateig í Reykjavík. Þar var ölvaður maður handtekinn sem hafði verið í slagsmálum við annan mann og brotið í honum tennur. Maðurinn gisti fangageymslur lögreglu í nótt.

Nokkuð var einnig um ölvunar- og fíkniefnaakstur í borginni í gærkvöldi og nótt. Þá var maður handtekinn í Kópavogi  grunaður um ræktun fíkniefna. Lagði lögreglan hald á plöntur og búnað en manninum var sleppt að lokinni skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×