Samkvæmt heimildum Markaðarins er vilji til þess hjá stærstu hluthöfum, sem fara samanlagt með 50,2 prósenta hlut í Stoðum, að halda starfsemi félagsins áfram þegar yfirtaka fjárfestingasjóðanna PAI Partners og British Columbia Investment Management á Refresco, fyrir jafnvirði um 200 milljarða króna, klárast á öðrum ársfjórðungi. Við það verður til stærsta fjárfestingafélag landsins með liðlega átján milljarða króna í eigið fé. Stjórn Stoða, áður FL Group, eins umsvifamesta fjárfestingafélagsins hér á landi í aðdraganda fjármálahrunsins 2008, mun kynna nýjar áherslur í starfsemi félagsins á hluthafafundi síðar á árinu.
Sá hópur fjárfesta sem fer með tögl og hagldir í Stoðum samanstendur meðal annars af félögum tengdum Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra FL Group og stjórnarmanns í Refresco frá árinu 2009, Einari Erni Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs og stjórnarmanni í TM, Magnúsi Ármann, fjárfesti og fyrrverandi stjórnarmanni FL Group, og Örvari Kjærnested, fjárfesti og stjórnarmanni í TM. Fjárfestahópurinn, ásamt tryggingafélaginu TM, eignaðist meirihluta í Stoðum þegar hópurinn keypti í byrjun síðasta árs, í gegnum félögin S121 og S122, rúmlega fimmtíu prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu af Glitni HoldCo og erlendum fjármálastofnunum. Ljóst er að hópurinn hefur hagnast verulega á þeim kaupum.

Ekki hafa fengist upplýsingar um hvað var greitt fyrir hlutinn í Stoðum í fyrra, en miðað við gengi bréfa Refresco á hlutabréfamarkaðinum í Amsterdam á þeim tíma þegar kaupin gengu í gegn er líklegt kaupverð um sjö til átta milljarðar króna. Samkvæmt heimildum Markaðarins gerði fjárfestahópurinn einnig sérstakan afkomuskiptasamning við Glitni HoldCo sem tryggði félaginu hlutdeild í framtíðarhagnaði af sölu Refresco. Var samningurinn gerður gagngert vegna væntinga um að drykkjaframleiðandinn yrði yfirtekinn. Umsvifamiklir fjárfestingarsjóðir höfðu sýnt Refresco mikinn áhuga um nokkurt skeið.
Virði 8,9 prósenta eignarhlutar Stoða í Refresco – sem er í gegnum félagið Ferskur Holding – var 12,7 milljarðar í árslok 2016, 15,8 milljarðar í lok júní í fyrra en er 17,9 milljarðar miðað við samþykkt yfirtökugengi. Hefur hluturinn þannig hækkað um 41 prósent í virði á einu ári. Tilkynnt var um yfirtöku PAI Partners og British Columbia Investment Management á Refresco í október á síðasta ári en gert ráð fyrir að kaupin gangi í gegn í apríl á þessu ári, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.