Glamour

iglo+indi með tískusýningu í Flórens

Ritstjórn skrifar
Myndir: Giovanni Giannoni fyrir Pitti Bimbo
Íslenska barnafatamerkið iglo+indi hélt sína fyrstu tískusýningu í Flórens á föstudaginn, þar sem sýndar voru valdar flíkur úr haust/vetrarlínunni 2018. iglo+indi tekur þátt í Pitti Bimbo sem er ein virtasta barnafatasýning í heiminum, svokölluð tískuvika barnafatageirans.

„Okkur var boðið að taka þátt en átta merki sýndu átta dress hvert á sýningunni. Pitti Bimbo er haldin tvisvar á ári í Flórens, 552 vörumerki sýna haust/vetrarlínunarnar og hingað koma yfir þúsund innkaupastjórar og yfir 400 blaðamenn frá 22 löndum. Það eru haldnar þrjár tískusýningar og þær vekja mikla athygli. Þetta er annað skiptið sem við tökum þátt á Pitti Bimbo en fyrsta skiptið sem við höldum tískusýningu. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð og það er mikill heiður að fá að taka þátt." segir Helga Ólafsdóttir, yfirhönnuður og stofnandi iglo+indi.

iglo+indi fagnar 10 ára afmæli á þessu ári og segir Helga þetta vera mikilvægt skref í að styðja við vöxt merkisins á alþjóðlegum vettvangi. Línan sem var sýnd á tískusýningunni kemur ekki í verslanir fyrr en í ágúst en vor- og sumarlínan er væntanleg í byrjun febrúar. 

 



×