Therese Johaug er sjöfaldur heimsmeistari í skíðagöngu og vann Ólympíugull í Vancouver 2010. Það verður hinsvegar engin Therese Johaug í norska Ólympíuliðinu í Suður Kóreu því hún tekur þar út keppnisbann sem henni sjálfri fannst mjög ósanngjarnt.
Therese Johaug féll á lyfjaprófi í október 2016 þegar anabólískir sterar fundust í sýni hennar. Hún sagði að þeir höfðu komið í gegnum Trofodermin krem sem hún notaði vegna mikils varaþurrks hennar í æfingabúðum á Ítalíu í september sama ár.
Norski íþróttaheimurinn skalf vegna málsins enda var ein stærsta íþróttastjarna liðsins að falla á lyfjaprófi. Viðbrögð hennar sjálfar vöktu líka mikla athygli enda hágrét hún á blaðamannafundi þar sem hún lýsti yfir sakleysi sínu.
Íþróttadómstóll í Noregi dæmdi hana fyrst í þrettán mánaða bann sem hefði þýtt það að hún hefði verið komin úr banninu fyrir Ólympíuleikana í Pyeongchang. Alþjóðaskíðasambandið áfrýjaði hinsvegar dómnum og málið endaði með því að fara fyrir Alþjóðaíþróttadómstólinn.

Therese Johaug gat ekki hugsað sér að vera í Noregi á meðan Ólympíuleikarnir standa yfir enda öll norska þjóðin með augun á leikunum sem eru líka aðalumfjöllunnarefnið í öllum norskum fjölmiðlum.
„Það eru tvær ástæður fyrir þessu. Það er gott fyrir hana að komast frá Noregi og það er gott fyrir hana að fá að æfa í friði í Seiser Alm,“ sagði þjálfari hennar Pål Gunnar Mikkelsplass við NRK.
„Hún er að reyna að losna við Ólympíuleikana úr huga sér. Við verðum aftur á móti að sjá hvernig það gengur. Við höfum ekki talað um Ólympíuleikana. Heimsmeistaramótið í Seefeld 2019 er markmiðið. Við höfum heldur ekki rætt Ólympíuleikana 2022 en kannski horfir hún þangað. Ég vona það. Það væri gaman fyrir hana að komast aftur á Ólympíuleikana áður ferillinn klárast,“ sagði Pål Gunnar Mikkelsplass við SportExpressen.
