Sport

Íslenski hópurinn gaf borgarstjóra Ólympíuþorpsins eggið „Móðir jörð“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski hópurinn á Ólympíuleikunum.
Íslenski hópurinn á Ólympíuleikunum. ÍSÍ
Ólympíuleikarnir verða settir í PyeongChang á morgun en í dag fékk íslenski Ólympíuhópurinn smá forskot á sæluna.

Íslenski hópurinn var boðinn velkominn í Ólympíuþorpið í PyeongChang. Sérstakar móttökuhátíðir eru haldnar dagana fram að setningarhátíð og var slík hátíð í dag þar sem þátttakendur frá Gana, Liechtenstein, Íslandi, Ekvador og Kosóvó voru boðnir velkomnir.

Á hátíðinni var íslenski fáninn dreginn að hún og þjóðsöngurinn leikinn. Andri Stefánsson, aðalfararstjóri íslenska hópsins skiptist á gjöfum við borgarstjóra Ólympíuþorpsins í PyeongChang og skrifaði að því loknu nafn sitt á friðarvegginn í þorpinu sem vígður var af Thomas Bach, forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) fyrr í vikunni.

Gjöf íslenska hópsins var keramikegg hannað af listakonunni Koggu, en eggið kallast Móðir jörð.  Gjöf borgarstjórans til ÍSÍ var listaverk, eftirlíking af frægum grip frá sjöundu öld sem framleiddur er í takmörkuðu upplagi vegna Vetrarólympíuleikanna 2018.

Undir lok hátíðarinnar var þjóðlegur trommusláttur og hátíðinni lauk með því að dansarar sýndu listir sínar og drógu þátttakendur með í dans undir taktfastri tónlist.

Íslenski hópurinn nýtti tímann fyrir hópmyndatöku auk þess sem að alþjóðlegir fjölmiðlar tóku viðtöl við keppendur.

Á morgun verða leikarnir settir formlega en þó er hafin keppni í nokkrum greinum, það er undankeppni eða riðlakeppni. Engir keppendur munu hafa lokið keppni á leikunum áður en setningarhátíðin fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×