Erlent

Forstjóri lettneska seðlabankans í gæsluvarðhald grunaður um spillingu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Ilmars Rimsevics, forstjóri lettneska seðlabankans.
Ilmars Rimsevics, forstjóri lettneska seðlabankans. Vísir/AFP
Ilmars Rimsevics, forstjóri lettneska seðlabankans, hefur verið færður í gæsluvarðhald vegna gruns um spillingu. BBC greinir frá.

Lögregluyfirvöld ruddust inn á heimili hans og skrifstofu fyrr í dag til að leita að vísbendingum vegna spillingarmáls.

Ráð sem sett var á fót til að koma upp um og koma í veg fyrir spillingu í landinu hefur ekki veitt frekari upplýsingar um rannsókn málsins. Í tilkynningu sem seðlabanki Lettlands sendi frá sér í kjölfarið kemur fram að bankinn geti heldur ekki tjáð sig um rannsóknina að svo stöddu en að spilling sé ekki liðin innan hans.

Forsætisráðherra Lettlands, Maris Kucinskis, hefur boðað til neyðarfundar á morgun en nefndi að engin hætta steðjaði að. „Það bendir ekkert til þess að lettneska fjármálakerfinu sé ógnað,“ sagði hann.

Þá sagði Kucinskis að hann komi ekki til með að skipta sér af rannsókn ráðsins og að aðrir ráðherrar geri það ekki heldur. „Ráðið vinnur rannsóknina af fagmennsku og nákvæmni,“ sagði hann og lofaði stuðningi ríkisstjórnarinnar.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að rannsóknin hafi ekki áhrif á daglega starfsemi bankans og að hann opni að venju á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×