Golf

Ólafía og Valdís ekki í sama ráshópi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Vísir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir munu brjóta blað í íslenskri golfsögu í nótt þegar þær verða báðar á meðal þátttakenda á ISPS Handa LPGA-mótinu sem fer fram í Ástralíu um helgina. Aldrei fyrr hafa tveir íslenskir kylfingar keppt á sama móti á sterkustu atvinnumótaröð heims.

Þær eru þó ekki saman í ráshópi og spila raunar á svo ólíkum tímum að það er líklegra að þær hittist á  milli hringja. Ólafía Þórunn hefur keppni klukkan 08.06 að staðartíma en Valdís Þóra klukkan 13.29.

Það þýðir að Ólafía Þórunn mun byrja að spila klukkan 21.36 að íslenskum tíma í kvöld en Valdís Þóra klukkan 02.59 í nótt.

Ólafía Þórunn verður í ráshópi með Cydney Clanton og Angela Stanford. Sú síðarnefnda er þaulreynd og hefur fimm sinnum fagnað sigri á LPGA-móti. Báðar eru frá Bandaríkjunum.

Valdís Þóra, sem er með fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en keppir nú á sínu fyrsta LPGA-móti, er í ráshópi með Paula Reto frá Suður Afríku og Saranporn Langkulgasettri frá Tælandi.

Bein útsending verður frá mótinu á Golfstöðinni og hefst útsending klukkan 02.00 í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×