Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, er æfur yfir ákvörðun Bandaríkjanna að veita sýrlenskum Kúrdum og bandamönnum þeirra innan SDF áframhaldandi stuðning. Erdogan segir ljóst að sú ákvörðun Bandaríkjanna muni hafa áhrif á stefnu Tyrklands og gagnrýnir Atlantshafsbandalagið, NATO, sömuleiðis harðlega.
Tyrkir gerðu innrás í Afrinhérað í Sýrlandi í síðasta mánuði með því markmið að reka sýrlenska Kúrda, YPG, frá héraðinu. Þeir segja sýrlenska Kúrda vera hryðjuverkamenn með tengingu við Verkamannaflokk Kúrda í Tyrklandi, PKK, sem háð hefur áratugalanga frelsisbaráttu þar í landi. Bandaríkin og Evrópusambandið eru ósammála því að YPG séu hryðjuverkamenn og hafa Bandaríkin staðið við bakið á þeim í baráttunni gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi.
Erdogan hefur einnig heitið því að ráðast á Manbij í Sýrlandi, sem er undir stjórn YPG, en fjöldi bandarískra hermanna eru staðsettir þar.
„Hverslags NATO aðild er þetta? Hverslags NATO-bandalag er þetta?“ spurði Erdogan í þingi Tyrklands í morgun. Hann sagði að Bandaríkin væru ekki NATO og að öll aðildarríki ættu að vera jöfn.
Á sama tíma setti Erdogan út á ummæli bandaríska hershöfðingjans Paul E. Funk um að ef Tyrkir myndu ráðast á Manbij, eins og Erdogan hefur lofað, muni þeir bandarísku hermenn sem eru þar verja sig.
„Þeir sem segja að þeir muni svara árásum með árásum hafa ekki fengið Ottómana-kinnhest,“ sagði Erdogan við þingmenn samkvæmt Anadolu fréttaveitunni sem er í eigur tyrkneska ríkisins.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun heimsækja Tyrkland á morgun og funda með Erdogan. Bandarískir embættismenn búast við átakafundi.

