Erlent

Hagur beykis vænkast í hlýnandi heimi á kostnað skóga

Kjartan Kjartansson skrifar
Hlýrra og vætusamara veðurfar virðist henta beykitrjám sem hafa sótt í sig veðrið í skógum í austurhluta Bandaríkjanna.
Hlýrra og vætusamara veðurfar virðist henta beykitrjám sem hafa sótt í sig veðrið í skógum í austurhluta Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Hnattræn hlýnun og aukin úrkoma virðist hafa verið vatn á myllu beykitrjáa. Vísindamenn í Bandaríkjunum vara við því að uppgangur beykis geti haft neikvæð áhrif á vistkerfi skóga og nytjar í þeim.

Niðurstöður hóps vísindamanna frá tveimur háskólum og Skógrækt Bandaríkjanna benda til þess að beyki hafi vaxið ásmegin í skógum í norðaustanverðum Bandaríkjunum frá 1983 til 2014. Á sama tíma hafi öðrum tegundum eins og hlyni og birki hnignað, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Þetta telja vísindamennirnir vandamál vegna hættunnar á útbreiðslu barkarsjúkdóma í beykinu sem veldur því að trén drepast ung. Ný tré taki við sem falli einnig fyrir sömu sjúkdómum. Þá hjálpar það beykinu að dádýr éta ekki fræ þess eins og annarra trjáa.

Breytingin í samsetningu skóga getur einnig haft áhrif á timburiðnaðinn. Beyki er gjarnan notað í eldivið og er mun verðminna en byrki og hlynur sem er nýttur í húsgögn og gólfefni.

„Framtíðaraðstæður virðast hygla beyki og umsjónarmenn skóga verða að finna góðar lausnir til að bæta úr því,“ segir Aaron Weiskittel, aðstoðarprófessor í skógarlífkenni og líkönum frá Háskólanum í Maine. Hann er einn höfunda rannsóknarinnar sem birtist í vísindaritinu Journal of Applied Ecology.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×